Fréttir

Starfsmannafélag Kópavogs

Starfslokanámskeið hjá Brú lífeyrissjóði.

Brú lífeyrissjóður heldur námskeið fyrir sjóðfélaga um lífeyrisréttindi við starfslok í húsakynnum sjóðsins, Sigtúni 42, Reykjavík.

Á námskeiðinu verður farið yfir hvar helstu upplýsingar um réttindi sjóðfélaga er að finna ásamt því að svara spurningum frá sjóðfélögum um lífeyrismál.

Takmarkaður fjöldi sæta eru í boði á hvert námskeið en við leitumst við að bæta við námskeiðum fari skrásetning fram úr áætluðum sætafjölda.

Næsta námskeið verður haldið miðvikudaginn 15. febrúar nk. 

16.30          B deild – Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar –

                               Lífeyrissjóður starfsmanna Kópavogsbæjar 

17.30          A deild

18.30          V deild

 

Sjóðfélagar geta skráð sig á námskeiðið hér:

http://www.lifbru.is/is/sjodsfelagar/starfslok/starfslokanamskeid

Kær kveðja / With regards

 

Fræðslufundur vegna starfsloka.

Fundurinn verður mánudaginn 6. mars nk. kl. 13:00-16:30 í húsnæði BSRB Grettisgötu 89, 1. hæð.

Fundurinn er opinn öllum félagsmönnum aðildarfélaga innan BSRB sem eru að nálgast starfslok eða eru nýlega hættir störfum.

Skráning á netfangið:

johanna@bsrb.is og í síma 525 8306 fyrir 1. mars nk.

 

Dagskrá:

13:00 Bjarni Karlsson prestur og MA í siðfræði fjallar um efnið: Seinni hálfleikur-farsæld eða vansæld. Hvað ræður niðurstöðunni?

13:45 Ásta Arnardóttir sérfræðingur-Tryggingastofnun – Lífeyrisþegar og almannatryggingar

14:30 Kaffihlé

15:00 Ágústa H. Gísladóttir forstöðumaður réttindamála hjá LSR og Þórdís H. Yngvadóttir sérfræðingur hjá Brú lífeyrissjóði – Lífeyrismál

16:30 Fundarlok

Morgunverðarfundur 23.febrúar milli klukkan 8 og 9 með Ögmundi Jónassyni.

Alþjóðamálafundur - Auglýsing (2) (2)

LEGGJA TIL KVENNAFRÍDAG 2020

Kjörið er að boða aftur til kvennafrís árið 2020, þegar 45 ár verða liðin frá fyrsta kvennafríinu, að mati vinnuhópsins sem skipulagði kvennafrídaginn á síðasta ári. Þetta kemur fram í skýrslu sem tekin hefur verið saman um kvennafrídaginn 2016.

Haldinn var baráttufundur á Austurvelli þann 24. október 2016 undir yfirskriftinni „kjarajafnrétti strax“. Konur voru hvattar til að ganga út af vinnustöðum klukkan 14:38 til að mótmæla kynbundnum launamuni. Þá voru haldnir fundir í að minnsta kosti 19 öðrum bæjarfélögum víða um land.

Vinnuhópurinn telur verkefnið hafa skilað góðum árangri. „Að boða til verkfalls og halda baráttufundi á kvennafrídegi hefur reynst áhrifamikil leið til að vekja athygli á kynbundnum launamun og kjaramisrétti kynjanna, bæði hér á landi og erlendis,“ segir í skýrslu vinnuhópsins.

„Samstöðukraftur er meðal kvenna á Íslandi til að berjast fyrir jafnrétti, og samtök kvenna og samtök launafólks ættu bæði að hlúa að þessum krafti og beita honum markvisst til að bæta samfélag okkar og jafna kjör kynjanna,“ segir þar enn fremur.

Svartur blettur sem þarf að útrýma
BSRB og önnur heildarsamtök launafólks í landinu tók virkan þátt í skipulagningu baráttufundarins. Kynbundinn launamunur er svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði sem þarf tafarlaust að útrýma.

Nýr félags- og jafnréttismálaráðherra hefur boðað frumvarp um að fyrirtækjum með 25 eða fleiri starfsmenn verði gert skylt að taka upp jafnlaunastaðal. Mikilvægt er að vandað verði til verka í þeirri vinnu svo hún skili þeim árangri sem allir hljóta að stefna að; að kynbundinn launamunur hverfi út af íslenskum vinnumarkaði í eitt skipti fyrir öll.

Hér má lesa skýrslu vinnuhópsins um kvennafríið 2016.

Kæru félagsmenn !

Dagbækurnar fyrir árið 2017 eru komnar og má nálgast eintak á skrifstofu SfK í Bæjarlind 14-16.

Keðjuverkun í endurskoðun kjarasamninga

Ef endurskoðun kjarasamninga á almennum markaði, sem nú er farin af stað, leiðir til þess að samningum verði sagt upp er BSRB heimilt að segja upp samningum fyrir hönd sinna aðildarfélaga.

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum er vinna hafin hjá Alþýðusambandi Íslands við að meta hvort forsendur sem lágu til grundvallar þegar kjarasamningar á almennum markaði voru gerðir séu brostnar. Verði það niðurstaðan að svo sé er hægt að segja þeim samningum upp fyrir 28. febrúar næstkomandi.

Í kjarasamningum opinberra starfsmanna er þó ákvæði um að komi til breytinga á kjarasamningum á almennum vinnumarkaði muni BSRB taka upp viðræður við ríki og sveitarfélög um hvort, og þá með hvaða hætti, slíkar breytingar taki gildi gagnvart samningum aðildarfélaga bandalagsins.

Vinna við endurskoðun kjarasamninga er ekki í gangi hjá BSRB þar sem endurskoðunarákvæðin eru annars eðlis í kjarasamningum aðildarfélaga bandalagsins. Þar kemur skýrt fram að verði samningum á almennum vinnumarkaði sagt upp á grundvelli forsenduákvæðis þeirra er BSRB heimilt að segja upp samningum fyrir hönd sinna aðildarfélaga með þriggja mánaða fyrirvara.

 

Nýjar úthlutunarreglur Styrktarsjóðs BSRB árið 2017

Úthlutunarreglur Styrktarsjóðs BSRB

 

1. Sjóðurinn greiðir bætur til sjóðfélaga í slysa- og veikindatilfellum eftir því sem nánar er mælt fyrir  í þessum reglum. Sjóðurinn styrkir einnig fyrirbyggjandi aðgerðir á sviði heilsueflingar og forvarnir gegn sjúkdómum sbr. lið 5.

2. Rétt til dagpeninga eða styrks úr sjóðnum eiga þeir sem aðild eiga að sjóðnum og njóta veikindaréttar samkvæmt gr. 2.2.1 í samkomulagi BSRB um veikindarétt enda hafi verið greitt vegna þeirra í sjóðinn a.m.k. 6 mánuði fyrir styrkveitingu.

3. Dagpeningar greiðast úr sjóðnum með eftirfarandi hætti:

a.       Dagpeningar greiðast frá þeim tíma sem samnings-/lögbundinni launagreiðslu frá atvinnurekanda lýkur.

b.      Upphæð dagpeninga skal vera 80% af meðal heildarlaunum síðustu 12 mánuði. Sé starfstími skemmri skal miðað við meðaltal launa þann tíma.

c.       Heimilt er að greiða dagpeninga hlutfallslega ef sjóðfélagi getur ekki vegna veikinda unnið fulla vinnu samkvæmt læknisráði.

d.      Heimilt er að greiða dagpeninga í allt að 60 daga vegna langvarandi veikinda maka eða barna sjóðfélaga enda missi hann launatekjur vegna þeirra. Sjóðfélagi skal þó hafa náð eins árs sjóðsaðild til að njóta þessarar heimildar.

4. Réttur sjóðfélaga til dagpeninga á hverjum 12 mánuðum er:

a.       Starfstími 6 til 12 mánuðir, 45 dagar.

b.      Starfstími lengri en 12 mánuðir, 90 dagar, þó þannig að samanlagt greiðslutímabil vinnuveitanda og sjóðsins verði aldrei lengra en 360 dagar. Þá er heimilt að greiða dagpeninga í allt að 45 daga til þeirra sem hafa lokið 360 daga veikindarétti hjá launagreiðanda.

Dagpeningar greiðast ekki lengur en ráðningu starfsmanns er ætlað að standa.

5. Sjóðurinn styrkir eftirfarandi:

a.       Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í 6 mánuði af síðustu 12 fær styrk til sjúkraþjálfunar, iðjuþjálfunar, sjúkranudds, nálastungumeðferðar, hnykklækninga (kiropraktor), 2.500 kr. fyrir hvert skipti, allt að 25 skipti á ári.  Einnig þjálfun hjá Hjarta- og lungnastöðinni eða sambærilegum stofnunum.  Styrkur fyrir þessi tilfelli skal þó að hámarki vera 62.500 kr. á ári.

b.      Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í 6 mánuði af síðustu 12 fær styrk til krabbameinsleitar 8.800 kr. einu sinni á ári. Komi til framhaldsrannsóknar er veittur styrkur allt að 10.000 kr.

Sjóðfélagi fær styrk til krabbameinsskoðunar í ristli og blöðruhálskirtli að hámarki 10.000 kr.

Sjóðfélagi fær styrk til skoðunar hjá Hjartavernd og Heilsuvernd allt að 17.000 kr. einu sinni á ári.

c.       Sjóðurinn tekur þátt í ferðakostnaði sjóðfélaga sem þurfa að fara landshluta á milli til aðgerða eða rannsókna að læknisráði vegna þeirra sjálfra, maka þeirra og barna, enda hafi verið greitt vegna þeirra í sjóðinn í 6 mánuði af síðustu 12. Sækja verður um styrk til Tryggingastofnunar. Sé þeirri beiðni hafnað greiðir sjóðurinn 10.000 kr. fyrir 250 – 400 km akstur, 15.000 kr. fyrir 400 – 600 km akstur, 20.000 kr. fyrir 600 – 800 km akstur og 25.000 kr. fyrir 800 km akstur eða meira. Miðað er við ferðalag fram og til baka. Greitt verður að hámarki fyrir þrjár ferðir á hverju 12 mánaða tímabili. Sjóðstjórn er heimilt að víkja frá þessum viðmiðunum ef fyrir því liggja ríkar ástæður.

d.      Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í 12 mánuði af síðustu 24 mánuðum, fær styrk að hámarki  23.000 kr. á ári samkvæmt reikningi frá eftirtöldum aðilum. Líkamsræktarstöðvum, sundstöðum, skíðastöðum eða íþróttafélagi. Einnig heilsurækt sem telst sambærileg að dómi sjóðstjórnar. Sjóðurinn veitir ekki styrki vegna kaupa á gatakortum sundstaða.

e.       Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í 12 mánuði af síðustu 24 fær styrk til ættleiðingar barns 200.000 kr. í eitt skipti. Þá fær sjóðfélagi styrk til tæknifrjóvgunar allt að 150.000 kr. á hverjum 24 mánuðum.

f.       Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í 12 mánuði af síðustu 24 fær styrk til sjónlagsaðgerðar/augasteinsaðgerða á öðru auga 50.000 kr. eða 100.000 kr. fyrir bæði augu. Einnig fær sjóðfélagi styrk til gleraugnakaupa einu sinni á hverjum 36 mánuðum. Styrkurinn nemur 50% af kostnaði sem fer umfram 45.000 kr., þó að hámarki 40.000 kr.

g.      Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í 12 mánuði af síðustu 24 fær styrk til meðferðar hjá heilsustofnunum og heilsuhótelum. Greiddar eru 2.000 kr. á dag fyrir allt að 28 daga á ári.

h.      Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í 12 mánuði af síðustu 24 fær styrk vegna meðferðar hjá eftirtöldum viðurkenndum meðferðaraðilum: Félagsráðgjafa, fjölskylduráðgjafa eða sálfræðingi. Greiddar eru 5.000 kr. í allt að 15 skipti á ári.

6. Greiddur er  200.000 kr. styrkur vegna útfarar, enda hafi hinn látni verið sjóðfélagi í a.m.k. 12 mánuði fyrir andlát.

Einnig er greiddur útfararstyrkur vegna þeirra sem látið hafa af störfum og farið á ellilífeyri eftir stofnun sjóðsins 1.1.2001 og hafa verið sjóðfélagar síðustu 12 mánuði fyrir starfslok. Upphæð útfararstyrks er 200.000 ef sjóðfélagi andast áður en hann verður 80 ára, en 100.000 ef sjóðfélagi hefur náð 80 ára aldri við andlát.

Þá er greiddur styrkur til sjóðfélaga vegna útfarar barna þeirra 18 ára og yngri. Styrkurinn er greiddur til þess sem útförina annast.

7. Sjóðstjórn er heimilt að víkja frá framangreindum reglum og veita styrk vegna sérstakra aðstæðna sem hafa í för með sér launamissi eða veruleg fjárútlát sjóðfélaga vegna veikinda hans sjálfs eða nánustu fjölskyldu.

8. Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í 12 mánuði af síðustu 24 getur sótt um styrk vegna tannlæknakostnaðar.  Styrkurinn nemur 50% af kostnaði sem fer umfram 50.000 kr. á 24 mánaða tímabili, þó að hámarki 150.000 kr. Réttur til styrkja stofnast ekki aftur fyrr en 12 mánuðir eru liðnir frá því að 24 mánaða tímabilinu lýkur.

Hægt er að sækja um styrkinn oftar en einu sinni á 24 mánaða tímabili. Kvittanir/aðgerðardagsetningar mega aldrei vera eldri en 12 mánaða gamlar.

9. Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í 12 mánuði af síðustu 24 getur sótt um styrk vegna kaupa á heyrnartækjum. Styrkurinn nemur 50% af kostnaði sem fer umfram 50.000 kr., þó að hámarki 150.000 kr. Styrkurinn miðast við kaup á tveimur tækjum á 36 mánaða tímabili.

10. Sjóðfélagi sem hefur verið starfandi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns og hefur gildan ráðningarsamning við upphaf fæðingarorlofs á rétt á styrk. Við útreikning upphæðar er miðað við greidd iðgjöld í sjóðinn síðustu 12 mánuði, ef iðgjaldaupphæð nær 25.112 kr. er styrkurinn 240.000 kr. Nái iðgjaldaupphæðin ekki þessu marki lækkar styrkurinn hlutfallslega miðað við inngreidd iðgjöld.

Styrkurinn er tvöfaldur við tvíburafæðingu og þrefaldur við þríburafæðingu. Sömu reglur gilda um ættleiðingar barna yngri en 5 ára. Hálfur styrkur er greiddur vegna fósturláts eftir 18 vikur og andvanafæðingar. Umsókn þarf að hafa borist innan 18 mánaða frá fæðingu barns.

11. Sjóðsaðild:

Almenn réttindi. Sjóðfélagar öðlast rétt til úthlutunar úr Styrktarsjóði BSRB eftir 6 eða 12 mánaða iðgjaldagreiðslur.

Yfirfærsla á réttinum á milli sjóða. Sjóðfélagar öðlast rétt til úthlutunar eftir iðgjaldagreiðslu í einn mánuð ef hann, fyrir það greiðslutímabil, átti rétt til úthlutunar úr sjóði annars stéttarfélags, enda veiti sá sjóður fyrrum sjóðfélögum Styrktarsjóðs BSRB samskonar rétt.

Í fæðingarorlofi. Sjóðfélagar sem fara í fæðingarorlof og velja að greiða stéttarfélagsgjald meðan að á fæðingarorlofi stendur halda fullum réttindum.

Í launalausu leyfi. Réttur til úthlutunar úr sjóðnum fellur niður á meðan á launalausu leyfi stendur en rétturinn stofnast að nýju strax við fyrstu iðgjaldagreiðslu að leyfi loknu.

Við starfslok. Réttur til úthlutunar úr Styrktarsjóði BSRB fellur niður þegar sjóðfélagi skiptir um félag og veitir sjóðurinn aðeins styrki vegna þeirra útgjalda sem félagsmaður stofnar til á meðan hann er í starfi.

Sjóðfélagi sem hættir störfum vegna aldurs eða örorku á rétt í 6 mánuði eftir starfslok.

Atvinnulausir sem greiða félagsgjald til stéttarfélaga sem eiga aðild að sjóðnum geta sótt um styrki skv. eftirtöldum greinum; 5a, 5b, 5d, 5h og 6.gr. Atvinnulausir ávinna sér ekki rétt á meðan á atvinnuleysi stendur en viðhalda þeim rétti sem þeir höfðu þegar þeir voru í starfi. Missi atvinnulausir bætur vegna veikinda getur sjóðurinn styrkt þá sem svarar 80% af atvinnuleysisbótum í allt að 45 daga.

Styrkir eru ekki veittir vegna kostnaðar sem stofnað var til áður en starf það hófst sem gefur rétt til aðildar að sjóðnum.

12. Umsóknir og reglur:

Umsóknir og gögn. Umsókn um styrki skal gerð á þar til gerðum eyðublöðum sem liggja frammi á skrifstofu Styrktarsjóðs BSRB og hjá aðildarfélögum sjóðsins. Einnig er hægt að nálgast umsóknareyðublöð á heimasíðu sjóðsins á slóðinni http://styrktarsjodur.bsrb.is.

Skila þarf inn frumriti reiknings þar sem fram kemur nafn og kennitala umsækjanda, dagsetningar og upphæðir. Á reikningnum þarf að vera stimpill eða merki þess viðurkennda meðferðaraðila eða fyrirtækis sem gefur reikninginn út og mega kvittanir eða aðgerðardagsetningar aldrei vera eldri en árs gamlar þegar að sótt er um hjá sjóðnum. Með umsóknum skulu fylgja öll gögn sem sjóðstjórn telur nauðsynleg hverju sinni (sjá umsóknareyðublað Styrktarsjóðs BSRB). Styrkir úr sjóðnum greiðast a.m.k. mánaðarlega. Umsókn skal skilað inn fyrir 15. hvers mánaðar en að jafnaði er greitt út síðasta dag hvers mánaðar eða næsta virka dag á eftir.

Stjórn sjóðsins áskilur sér allan rétt til að breyta reglunum með 3ja mánaða fyrisvara eftir því sem þörf krefur, hvort sem er til þrengingar á reglunum eða útvíkkunar. Fé sjóðsins verður látið ráða því á hverjum tíma.

Gildir frá 1. janúar 2017

Styrktarsjóður BSRB • Grettisgötu 89 • 105 Reykjavík • Sími: 525 8380 • Fax: 525 8389 • postur@styrktarsjodur.bsrb.is

Kæru BSRB / SfK félagar, fjölmennum á þingpallana kl. 15:00 í dag 21.12´16.

Formannaráð BSRB krefst breytinga:

Formannaráð BSRB krefst þess að alþingismenn geri mikilvægar breytingar á frumvarpi fjármálaráðherra um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem rætt verður seinna í dag á Alþingi.

Í ályktun sem ráðið hefur sent frá sér ítrekuð sú afstaða bandalagsins að mikilvægt sé að ljúka þessum viðamiklu breytingum í sátt við bandalög opinberra starfsmanna. Til þess þurfi að breyta frumvarpinu svo það endurspegli samkomulag um breytta skipan lífeyrismála sem þrjú heildarsamtök opinberra starfsmanna gerðu við ríki og sveitarfélög í september síðastliðnum.

Frumvarpið felur í sér afnám bakábyrgðar sjóðfélaga í A-deild LSR og Brúar sem eru yngri en 60 ára án bóta. Í samkomulaginu kemur hins vegar fram að ekki eigi að skerða réttindi sjóðfélaga heldur eigi þau að vera jafn verðmæt eftir breytingarnar og fyrir þær.

Verði ekki gerðar nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu áður en það verður að lögum er ljóst að þessu verkefni er ólokið. Þá er ljóst að það mun hafa neikvæð áhrif á samskipti þeirra sem að samkomulaginu stóðu að ákvæði þess séu ekki uppfyllt, segir í ályktuninni.

Ályktunina má lesa í heild sinni hér að neðan.

Ályktun formannaráðs BSRB um frumvarp til laga um LSR

Formannaráð BSRB krefst þess að Alþingi geri nauðsynlegar breytingar á frumvarpi til laga um LSR til samræmis við undirritað samkomulag um breytta skipan lífeyrismála sem undirritað var 19. september síðastliðinn. Lögð er áhersla á að málið sé afgreitt í sátt við heildarsamtök opinberra starfsmanna.

BSRB hefur margítrekað bent á að fyrirliggjandi frumvarp felur í sér að bakábyrgðin sé afnumin af réttindum sjóðfélaga undir 60 ára aldri án bóta. Það er þvert á markmið samkomulagsins um að réttindi núverandi sjóðfélaga í A-deild LSR og Brúar séu jafn verðmæt fyrir og eftir kerfisbreytingar.

Traust milli aðila er lykilforsenda þess að friður ríki á vinnumarkaði. Fari frumvarpið óbreytt í gegn er ljóst að verkefninu er ólokið og mun ótvírætt hafa neikvæð áhrif á samskipti þeirra sem að samkomulaginu stóðu.

Reykjavík, 20. desember 2016

Breyta þarf frumvarpi um lífeyrismál

BSRB mun ekki styðja frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna nema gerðar verði á því breytingar í meðförum Alþingis.

Bandalagið telur frumvarpið ekki endurspegla það samkomulag sem bandalög opinberra starfsmanna gerðu við ríki og sveitarfélög. Í umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er bent á að með minniháttar breytingum á frumvarpinu sé hægt að gera þær mikilvægu breytingar á lífeyrismálum landsmanna sem unnið hefur verið að undanfarin ár í sátt við opinbera starfsmenn.

„Við höfum frá upphafi lagt höfuðáherslu á að áunnin réttindi sjóðfélaga í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna yrðu jafn verðmæt eftir breytinguna og þau eru í dag. Það teljum við ekki tryggt eins og frumvarpið kemur frá ráðuneytinu og við því þarf Alþingi að bregðast,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. Afstaða bandalagsins er sú sama og til fyrra frumvarps fjármálaráðherra, sem lagt var fram á þingi fyrir síðustu kosningar.

Ábyrgð nái til allra sjóðfélaga

Í umsögn BSRB er þessi afstaða bandalagsins ítrekuð: „Samræming lífeyriskerfa milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins verður ekki gerð með skerðingu á réttindum núverandi sjóðfélaga. Það er því ekki nægilegt að frumvarpið kveði eingöngu á um að lítill hluti núverandi sjóðfélaga sæti ekki skerðingum á réttindum sé staða sjóðsins neikvæð í tilskilinn tíma en aðrir ekki sitji ekki við sama borð. Kerfisbreytingin hlýtur að þurfa að fela í sér að núverandi sjóðfélagar haldi sömu réttindum eins og hefði verið í núverandi kerfi eða jafn verðmætum.“

Þar er einnig bent á hvernig tryggja megi að frumvarpið endurspegli samkomulagið að fullu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkið tryggi að réttindi allra sjóðfélaga 60 ára og eldri séu tryggð. Til að ná sátt um málið þarf sama ábyrgð að ná til allra núverandi sjóðfélaga. Í ljósi þess að stjórnvöld telja afar litlar líkur á að reyna muni á slíkt ákvæði er ekkert því til fyrirstöðu að fara þessa leið.

Styrkur úr Starfsmenntasjóði árið 2016.

Kæru félagsmenn!

við viljum minna á að senda inn umsókn um styrk úr Starfsmenntasjóði,

fyrir árið 2016,

eigi síðar en 20/12 nk.

Page 5 of 21« First...«34567»1020...Last »

Nýttu þér rétt þinn og leyfðu okkur að gera þér lífið léttara. Starfsmannafélag Kópavogs býður upp á fjölda styrkja, námskeiða og tækifæra. Hafðu samband og við sjáum hvað við getum gert saman.