Fréttir

Starfsmannafélag Kópavogs

Frestur umsókna og fylgigagna 2016

Styrktarsjóður BSRB vill benda félagsmönnum á að til að geta fengið styrk vegna ársins 2016 er nauðsynlegt að skila umsóknum og fylgigögnum í síðasta lagi þriðjudaginn 20. desember nk.

Lokað á skrifstofu SfK 23.nk

Kæru félagsmenn!

lokað verður á skrifstofunni 23.11.2016 vegna starfsdaga BSRB.

Starfslokanámskeið hjá Brú lífeyrissjóði.

Brú lífeyrissjóður heldur námskeið fyrir sjóðfélaga um lífeyrisréttindi við starfslok í húsakynnum sjóðsins, Sigtúni 42, Reykjavík.

Á námskeiðinu verður farið yfir hvar helstu upplýsingar um réttindi sjóðfélaga er að finna ásamt því að svara spurningum frá sjóðfélögum um lífeyrismál. Takmarkaður fjöldi sæta eru í boði á hvert námskeið en við leitumst við að bæta við námskeiðum fari skrásetning fram úr áætluðum sætafjölda.

Næsta námskeið verður haldið mánudaginn 21. nóvember nk. 

kl.  16.30          B deild – Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar – 

                                    Lífeyrissjóður starfsmanna Kópavogsbæjar 

kl.  17.30          A deild

kl.  18.30          V deild

 

Sjóðfélagar geta skráð sig á námskeiðið hér:

http://www.lifbru.is/is/sjodsfelagar/starfslok/starfslokanamskeid

 

BSRB skorar á kjararáð að endurskoða hækkanir

BSRB mótmælir harðlega þeirri ákvörðun kjararáðs að hækka laun þingmanna, ráðherra og forseta Íslands um tugi prósenta og skorar á kjararáð að endurskoða ákvörðun sína.

Launahækkun kjörinna fulltrúa er í engu samræmi við rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Í rammasamkomulaginu er ákvæði um sameiginlega launastefnu til ársloka 2018 sem koma átti í veg fyrir það höfrungahlaup sem einkennt hefur vinnumarkaðinn. Hækkanir kjararáðs fara langt út fyrir þann ramma.

Endurskoða þarf lög um kjararáð til að auka gagnsæi í ákvörðunum ráðsins, að mati BSRB. Skilgreina þarf betur við hvaða stéttir á að miða þegar ráðið ákvarðar laun og tryggja að launaþróun þeirra hópa sem heyra undir ráðið verði ekki leiðandi á launamarkaði.

Hækkanirnar ná ekki aðeins til þingmanna og forseta, heldur einnig til sveitarstjórnarmanna, þar sem laun þeirra miðast við þingfararkaup. Það er því fjölmennur hópur fólks sem hefur háar tekjur fyrir sem hækkar í launum vegna ákvörðunar kjararáðs. Með ákvörðuninni er verið að auka enn á ójöfnuð í landinu með því að hækka laun hátekjufólks um sem samsvarar vel rúmlega lágmarkslaunum í landinu. Það er augljóslega óásættanlegt.

Það getur ekki verið verkefni verkalýðshreyfingarinnar einnar að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði. Þar verða stjórnvöld einnig að taka ábyrgð. Sé einhver alvara með orðum stjórnmálamanna um að viðhalda hér efnahagslegum og félagslegum stöðugleika er ljóst að þessar hækkanir geta ekki staðið. Sé það vilji stjórnvalda að fara af þeirri braut sem hefur verið mörkuð er ljóst að launafólk mun sækja sambærilegar launahækkanir.

Kæru félagsmenn! Föstudaginn 04.11.2016 verður skrifstofa SfK lokað kl. 12:00 vegna jarðafarar.

Samtaka í baráttu fyrir félagslegu réttlæti.

Áherslan á félagslegt réttlæti er eitt af því sem sameinar BSRB og Alþýðusamband Ísland í baráttu fyrir betra samfélagi. Mikilvægt er að heildarsamtök launafólks standi saman og styðji við hvort annað í baráttunni, sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í ávarpi sínu við setningu 42. þings ASÍ í morgun.

„Stundum er eins og við í forystu BSRB og ASÍ tölum í sitthvora áttina í mikilvægum málum, en þegar nánar er að gáð eru miklu fleiri atriði sem sameina okkur en sundra,“ sagði Elín Björg. „Við erum sammála um mikilvægi þess að berjast fyrir kjörum og réttindum launafólks í landinu. Þar eigum við að standa saman og styðja við bakið hvort á öðru í baráttunni.“

Elín Björg sagði BSRB og ASÍ eiga það sameiginlegt að vilja viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu, þó fleiri þurfi að koma að því verkefni. Það sé sameiginlegt baráttumál að tryggja aukinn kaupmátt launafólks og félagslegan stöðugleika.

Hún sagði það vonbrigði að endanleg útfærsla frumvarps um breytingu á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna hafi ekki verið í anda samkomulags sem heildarsamtök opinberra starfsmanna gerðu við ríki og sveitarfélög í september.

„Það eru flestir sammála um mikilvægi þess að vera með samræmt lífeyriskerfi. Á sama hátt hljóta flestir að vera sammála um að ekki eigi að vera launamunur milli markaða né heldur að skerða eigi áunnin réttindi launafólks,“ sagði Elín Björg.

„Við verðum áfram að vanda okkur þegar við vinnum saman að þeim risastóru verkefnum sem bíða. Þar skiptir umræðuhefðin miklu máli. Einungis þannig getum við náð lendingu sem allir geta sætt sig við. Þannig virkar samstaðan.“

Ávarp Elínar Bjargar í heild sinni er hér að neðan.

Forseti ASÍ, ráðherrar, ágætu félagar.

Samstaða er yfirskrift þessa fertugasta og annars þings ASÍ og það á vel við. Hún er mikilvægt afl fyrir allt launafólk og við eigum þar samleið BSRB og ASÍ.

Stundum er eins og við í forystu BSRB og ASÍ tölum í sitthvora áttina í mikilvægum málum, en þegar nánar er að gáð eru miklu fleiri atriði sem sameina okkur en sundra. Við erum sammála um mikilvægi þess að berjast fyrir kjörum og réttindum launafólks í landinu. Þar eigum við að standa saman og styðja við bakið hvort á öðru í baráttunni.

Mikilvægi heildarsamtaka á borð við ASÍ og BSRB eru augljós í því að móta sýn um hvernig samfélag við viljum byggja. En það er ekki nóg að hafa markmiðin á hreinu, við verðum líka að vinna sameiginlega að því að komast á leiðarenda.

Við erum sammála um ákveðna framtíðarsýn. Við vinnum saman að því að viðhalda stöðugleika í íslensku efnahagslífi, þó það sé auðvitað ekki verkalýðshreyfingarinnar einnar að sinna því verkefni. Það er sameiginlegt baráttumál að tryggja aukinn kaupmátt íslensks launafólks og félagslegan stöðugleika.

En það er ekki síður áherslan á félagslegt réttlæti sem sameinar okkur í baráttunni. Við sameinuðumst á Austurvelli á mánudaginn var þar sem við börðumst fyrir jafnrétt. En dæmin eru fleiri.

  • BSRB og ASÍ hafa til að mynda stofnað íbúðafélag sem ætlað er að bæta stöðu þeirra tekjulægri á húsaleigumarkaði.
  • Við eigum marga samstarfsfleti þegar kemur að menntamálum, til dæmis Félagsmálaskóla alþýðu og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
  • Við höfum undanfarið unnið saman, að átaki til að byggja upp fæðingarorlofskerfið með átakinu Betra fæðingarorlof, og tekist í sameiningu að gera það mál að einu af kosningamálunum.
  • Við höfum verið sameinuð í baráttunni gegn áformum um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þar sem okkur hefur tekist að koma okkar sjónarmiðum skýrt á framfæri.
  • Og við höfum verið saman í umræðu um að bæta íslenska kjarasamningsmódelið á vettvangi Salek-hópsins.

Það er sannarlega margt sem sameinar ASÍ og BSRB í baráttunni. Það á þó ekki við um öll mál. Undanfarin ár hafa bandalög opinberra starfsmanna verið í viðræðum við ríki og sveitarfélög um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna þannig að allt launafólk búi við samskonar lífeyriskerfi. Þar höfum við gætt að því að réttindi sem félagsmenn hafa áunnið sér verði ekki skert.

Þessi vinna skilaði sér í samkomulagi sem bandalög opinberra starfsmanna og fulltrúar ríkis og sveitarfélaga undirrituðu um miðjan september. Í kjölfarið lagði fjármálaráðherra fram frumvarp sem ætlað var að fanga efni samkomulagsins og koma því í lög.

Það urðu okkur mikil vonbrigði að sjá endanlega útfærslu frumvarpsins þar sem ljóst var að það endurspeglaði ekki það samkomulag sem við undirrituðum. En verkefnið fer ekki frá okkur.

Það eru flestir sammála um mikilvægi þess að vera með samræmt lífeyriskerfi. Á sama hátt hljóta flestir að vera sammála um að ekki eigi að vera launamunur milli markaða né heldur að skerða eigi áunnin réttindi launafólks.

Við verðum áfram að vanda okkur þegar við vinnum saman að þeim risastóru verkefnum sem bíða. Þar skiptir umræðuhefðin miklu máli. Einungis þannig getum við náð lendingu sem allir geta sætt sig við. Þannig virkar samstaðan.

Að lokum vil ég óska ykkur velfarnaðar í störfum þingsins.

Fundur um jafnréttismál.

Burt með launamuninn! Jafnrétti og jafnlaunamál á íslenskum vinnumarkaði

Morgunverðarfundur, 24.október 2016, kl.08.00-10.30, á Hilton Reykjavik Nordica.

Kynning á tillögum aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum.

Dagskrá fundarins má sjá hér.

KONUR HVATTAR TIL AÐ LEGGJA NIÐUR VINNU KL.14:38 MÁNUDAGINN 24.OKTÓBER.

Kvennafrí 2016 – Kjarajafnrétti strax!

Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:38 mánudaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Austurvelli, kl. 15:15 undir kjörorðinu KJARAJAFNRÉTTI STRAX! Að átakinu standa samtök launafólks og samtök kvenna.

Meðal atvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðal atvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri meðaltal atvinnutekna. Samkvæmt því eru konur búnar að vinna fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:38.

Þann 24. október árið 1975 lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Árið 2005 héldum við upp á kvennafrídaginn í annað sinn og konur gengu í tugþúsunda talið útaf vinnustað á þeirri mínútu þegar þær hættu að fá borgað fyrir störf sín miðað við karla. Þá gengu konur út klukkan 14:08. Árið 2010 gengu konur út klukkan 14:25. Nú göngum við út klukkan 14:38. Við höfum grætt hálftíma á ellefu árum. Tæplega þrjár mínútur á hverju ári. Með þessu áframhaldi þurfum við að bíða í 52 ár eftir að hafa sömu laun og sömu kjör og karlar, til ársins 2068! Það er óásættanlegt!

Fylgstu með á kvennafri.is og facebook.com/kvennafri. Taktu þátt í samræðunum á Twitter undir myllumerkinu #kvennafrí og #jöfnkjör, og fylgdu okkur á @kvennafri.

Saga Kvennafrídagsins

Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn árið 1975 á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þann dag lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Launamisrétti, vanmat á störfum kvenna, skortur á virðingu og valdaleysi var konum efst í huga. Þær söfnuðust saman og sýndu svo eftir var tekið um allan heim að samstaðan er sterkasta vopnið. Hjól atvinnulífsins og reyndar þjóðlífsins alls nánast stöðvuðust þennan dag.

Konur héldu upp á kvennafrídaginn árið 1985 með því að opna Kvennasmiðju dagana 24. – 31. október til að vekja athygli á vinnuframlagi og launakjörum kvenna. Árið 2005 sýndu konur samstöðu og lögðu tugþúsundir niður störf kl. 14:08 og fylltu miðborgina. Árið 2010 gengu konur út kl. 14:25 mánudaginn 25. október undir kjörorðunum „Já, ég þori, get og vil“.

Konur á Íslandi hafa sannarlega sýnt svo eftir er tekið um allan heim að samstaðan er sterkasta vopnið.

Að fundinum standa samtök launafólks og samtök kvenna: Alþýðusamband Íslands, BSRB, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, Aflið, Bandalag kvenna í Reykjavík, Bríet – félag ungra feminista, Delta Kappa Gamma, Druslubækur og doðrantar, Druslugangan, Dziewuchy Dziewuchom Islandia – Konur konum Ísland, Í kjölfar Bríetar, Jafnréttisfélag Háskólans í Reykjavík, Femínistafélag Háskóla Íslands, Femínistafélag Íslands, Félag kvenna í atvinnulífinu, Kítón – Konur í tónlist, Knúz.is, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennahreyfing Samfylkingarinnar, Kvennahreyfing ÖBÍ, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamband Framsóknarkvenna, Landssamband Sjálfstæðiskvenna, Rótin, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtök um kvennaathvarf, Samtökin ’78, Soroptimistasamband Íslands, Sólstafir, Stígamót, Tabú, UNWomen, WIFT – Konur í kvikmyndum og sjónvarpi og Zontasamband Íslands.

Brú lífeyrissjóður býður sjóðfélögum óverðtryggð lán.

Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga býður nú sjóðfélögum sínum upp á óverðtryggð íbúðarlán, nú með 6,44% breytilegum vöxtum. Sjóðurinn kemur þannig til móts við eftirspurn sjóðfélaga sinna um óverðtryggð lán, en fyrir hefur sjóðurinn eingöngu veitt lán á föstum verðtryggðum vöxtum sem nú eru 3,7%.

Stjórn sjóðsins skrifaði undir nýjar lánareglur þar sem aukið var við lánakosti sjóðfélaga og var hámarks fjárhæð hækkuð upp í 50 milljónir króna, hámarks veðhlutfall hækkað í 75% af markaðsvirði íbúðar þó með þeim skilyrðum að lán sem eru með yfir 65% veðhlutfall verði ekki lengur en til 35 ára og á 1. veðrétti. Einnig var lántökugjald lækkað úr 1% í 0,5% og ekkert lántökugjald tekið við endurfjármögnun á lánum frá sjóðnum sem eru eldri en 12 mánaða. Þá er ekkert uppgreiðslugjald á lánum.

Vextir óverðtryggðu lánanna verða fastir fyrstu 36 mánuðina. Vextirnir verða endurskoðaðir á hálfs árs fresti og geta þá tekið breytingum. Lántakendur geta sótt um að festa vexti aftur að fastvaxtatímabili loknu.

Þessir lánakostir bjóðast öllum þeim sem hafa einhvern tímann greitt iðgjöld til sjóðsins, sem og sjóðfélögum í Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar og Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogsbæjar.

Sjá nánar á heimasíðu Brúar lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga: www.lifbru.is

 

 

 

 

FÆÐINGARORLOFSMÁL.

Krefjumst breytinga á fæðingarorlofskerfinu

BSRB og ASÍ hafa tekið höndum saman um að krefja stjórnvöld um breytingar á fæðingarorlofskerfinu. Til að sýna mikilvægi þess að búa við gott fæðingarorlofskerfi hvetjum við fólk til að segja sína sögu í stuttu máli á samfélagsmiðlum og merkja með myllumerkinu #betrafaedingarorlof.

Fylgstu með á Facebook-síðu átaksins, Betra fæðingarorlof.

Markmið fæðingarorlofslaga er að börnum sé tryggð samvera við báða foreldra og að konum og körlum sé kleift að samræma fjölskyldu og atvinnulíf. Rannsóknir sýna að núverandi kerfi tryggir ekki að þetta markmið nái fram að ganga.

Til dæmis hefur þátttaka feðra minnkað um 40% frá því fyrir hrun og fæðingartíðni er í sögulegu lágmarki. Þá hefur hámarksupphæð lækkað verulega á undanförnum árum, á meðan verðlag á húsnæði og nauðsynjavörum hefur hækkað. Staða þeirra foreldra sem fara í fæðingarorlof er allt annað en öfundsverð.

Það er forgangsmál að endurskoðun eigi sér stað og horft verði til framtíðar. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um nauðsyn endurskoðunar og að breytinga sé þörf hefur ekki verið brugðist við.

Kröfur BSRB og ASÍ eru:

  • Greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi verði óskertar upp að 300.000 kr.
  • Hámarksgreiðslur verði 600.000 kr.
  • Fæðingarorlof verði 12 mánuðir.
Page 4 of 19« First...«23456»10...Last »

Nýttu þér rétt þinn og leyfðu okkur að gera þér lífið léttara. Starfsmannafélag Kópavogs býður upp á fjölda styrkja, námskeiða og tækifæra. Hafðu samband og við sjáum hvað við getum gert saman.