Fréttir

Starfsmannafélag Kópavogs

Íslendingar vilja félagslegt heilbrigðiskerfi

Öryrkjar eru sá þjóðfélagshópur sem greiðir hlutfallslega mest af ráðstöfunartekjum sínum í heilbrigðisþjónustu hér á landi, eða um 10%. Þar á eftir koma langveikir, fólk sem þarf oft að sækja sér þjónustu á göngu og bráðadeildir. Fjölda þeirra sem fresta þess að leita heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar hennar fer stöðugt vaxandi. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í rannsókn Rúnar Vilhjálmssonar um heilsu og lífshætti Íslendinga. Rúnar flutti erindi sitt við setningu 44. þings BSRB í gær þar sem jafnframt kom fram stuðningur við að hið opinbera eigi og reki heilbrigðisþjónustu á Íslandi fer vaxandi.

Útgjöld viðkvæmustu hópanna aukast

Þegar niðurstöður heilbrigðiskönnunarinnar 2015 eru bornar saman við fyrri heilbrigðiskönnun meðal Íslendinga á sama aldri frá árinu 2006 er tilhneiging til aukins fylgis Íslendinga við opinberan rekstur heilbrigðisþjónustunnar. Á sama tíma dregur úr fylgi við að einkaaðilar reki einstaka þætti heilbrigðisþjónustunnar. Þetta á við um nær alla þætti heilbrigðisþjónustunnar.

Séu heimilisútgjöld vegna heilbrigðismála skoðuð sem hlutfall af tekjum heimilanna sést að útgjaldahlutfall er hæst á heimilum eldra fólks, atvinnulausra, fólks utan vinnumarkaðar, grunnskólamenntaðra, lágtekjufólks, langveikra og öryrkja.

Auk­inn kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu hefur síðan haft þau á áhrif sumir fresta því eða sleppa að leita sér læknisþjónustu, jafnvel þótt fólk telji sig þurfa á henni að halda. Eft­ir því sem heil­brigðisút­gjöld væru hærra hlut­fall af tekj­um heim­ila því al­geng­ara væri að fólk frestaði þjón­ust­unni. Af þeim sem eyddu 4% eða meira af tekj­um sín­um í heil­brigðisþjón­ustu hafði um þriðjung­ur frestað þess að leita sér aðstoðar.

Ástæður þess að fólk frestaði því að leita sér aðstoðar hafa breyst á undanförnum árum. Kostnaður­inn við þjón­ust­una hefur á undanförnum árum verið vax­andi ástæða frestunar. Árið 2006 hafi um 30% nefnt það sem ástæðu en nú er það hlut­fall komið upp í 40%.

Rún­ar kom inn á það í erindi sínu að of langt hefði verið gengið í að auka kostnaðarþátt­töku sjúk­linga. Þeir hóp­ar sem frestuðu því að leita sér aðstoðar væru þeir sem síst mættu við því. Kostnaður­inn legðist þyngst á lág­tekju­fólk, lang­veika, ör­yrkja og náms­menn. Öryrkj­ar væru með lang­hæstu út­gjalda­byrðina, tæplega 10% að meðaltali  ráðstöf­un­ar­tekj­um sín­um.

Mikill stuðningur við félagslegt heilbrigðiskerfi

Niður­stöður rann­sókn­a Rúnar benda sterklega til þess að vilji sé til að styrkja op­in­bera heil­brigðis­kerfið á Íslandi á næstu árum og efla al­manna­trygg­inga­kerfið til þess að lækka lyfja­kostnað og komu­gjöld. Rúnar nefndir sem dæmi að farsæl skref í þá veru gætu verið að efla heilsu­gæsl­una, bæta aðbúnað sjúk­linga og starfs­manna, auka ná­lægð þjón­ust­unn­ar, t.d. með  vinnustaðaþjón­ustu, heilsu­gæslu í fram­halds­skól­um og sér­fræðinga­heim­sókn­um á heilsu­gæslu­stöðvar.

Þegar afstaða fólks til þess hver eigi að reka sjúkrahús á Íslandi er skoðuð sést að rúmlega 80% svarenda vilja að það sé alfarið á vegum opinberra aðila. Aðeins telja 0,5% svarenda að sjúkrahús ættu að vera rekin af einkaaðilum. Þegar aðrir þættir heilbrigðisþjónustunnar eru skoðaðir sé einnig mjög mikill og ríkur stuðningur við að það sé fyrst og fremst á forræði hins opinbera.

Frekari upplýsingar um erindi Rúnar Vilhjálmssonar má sjá hér í glærum sem hann studdist við í erindi sínu. Þá var Rúnar í ítarlegu viðtali við Spegilinn í gær og hlusta má þá hér (viðtalið hefst eftir u.þ.b. 9 mínútur). Einnig fjallaði Mbl.is um erindi Rúnars og þá umfjöllun má finna hér.

Öflug almannaþjónusta – betra samfélag

„Undirstaða okkar samfélags, er að hér eiga allir að hafa jafnan rétt rétt – óháð kyni, aldri, búsetu, uppruna, trúar eða efnahag. Sameiginlegan rétt til menntunar, umönnunar og heilbrigðisþjónustu án þess að greiða sérstaklega fyrir það. Og það er þetta sem almannaþjónustan veitir,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB í setningarræðu sinni á 44. þingi BSRB sem var sett á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu í Reykjavík í morgun. Yfirskrift þingsins að þessu sinni er „Öflug almannaþjónusta – betra samfélag“.

Samfélag félagslegs réttlætis

„Almannaþjónustan er undirstaða jafnaðar, félagslegs réttlætis og velferðar okkar allra. Hvar svo sem við stöndum og hvernig svo sem við erum gerð, eigum við að geta treyst á, að ef eitthvað bjátar á, þá verði okkur hjálpað eftir fremsta megni til að komast aftur á réttan kjöl. Við setjum traust okkar á félagslega samheldni, þar sem hagur heildarinnar og velferð fjöldans er í fyrirrúmi. Samfélag sem hefur þá hugsun að leiðarljósi er samfélag sem gott er að lifa í. Samfélag þar sem skattkerfið er nýtt til lífskjarajöfnunar og skattar standa undir samneyslunni. Samfélag sem hafnar þeirri hugmynd að hver sé sjálfum sér næstur – en byggir þess í stað á hugmyndum um samhjálp og félagshyggju. Slíkt samfélag fær ekki þrifist án öflugrar almannaþjónustu. Öflug almannaþjónusta byggir betra samfélag,“ sagði Elín Björg í ræðu sinni og bætti við að við þyrftum að gera betur í framtíðinni.

Efling almannaþjónustunnar eflir samfélagið

„Þegar við horfum til framtíðar hljótum við að vera sammála um að við viljum gera þessum gildum okkar hærra undir höfði en nú er. Og þó hér sé margt vel gert, hljótum við að vilja sjá öflugri heilbrigðisþjónustu, sterkara menntakerfi, betri almannatryggingar, aukinn kaupmátt og betri lífsskilyrði,“ sagði Elín Björg.

„Við viljum skila komandi kynslóðum betra búi en við tókum við. Við viljum lifa í vissu um, að við og okkar nánustu búi í samfélagi sem grípur þá sem hrasa og hjálpa þeim aftur á fætur – það eru hin sönnu verðmæti. En til að svo megi verða þurfum við að gera betur í dag en í gær. Þess vegna verðum við að efla almannaþjónustuna, því þannig eflum við samfélagið og lífsskilyrði okkar allra.

Áherslubreytinga þörf

Því miður bendir margt til þess, að við séum á leið af þessari braut. Allt of margir eiga erfitt með að láta enda ná saman. Ungt fólk og barnafjölskyldur eiga litla möguleika á að koma sér upp heimili. Sjúklingar greiða allt of mikið í lyfjakostnað og heilbrigðisþjónustu. Lífeyrisþegar hafa allt of lítið á milli handanna. Á tímum uppgangs og endurreisnar er öfugsnúið að fátækt sé útbreidd á Íslandi og bilið sé aftur að aukast á milli þeirra efnamestu og þeirra sem minnst hafa. Allt of mikið af ungu fólki hefur kosið að freista gæfunnar í öðrum löndum og enn fleiri hugsa sér til hreyfings,“ sagði formaður BSRB.

„Ef ekkert breytist í áherslum stjórnvalda á Íslandi er alls óvíst hvort þetta fólk muni nokkru sinni snúa aftur. En þetta þarf ekki að vera svona,“ sagði Elín Björg og hélt áfram:

„Við erum vel menntuð þjóð og landið ríkt af auðlindum. Orkan og iðnaðurinn – ferðamennirnir og fiskurinn. Allt eru þetta tekjulindir sem ættu að nýtast þjóðarbúinu betur og skila meiru til samfélagsins. Það þarf ekkert nema viljann, samstöðuna og samhuginn og þá getum við komist nær auknum jöfnuði og aukið lífsgæði okkar allra. En til þess þarf breyttar áherslur hjá réttum aðilum. Arður auðlindanna á að nýtast þjóðinni allri, til að styrkja innviðina. Þannig tekst okkur að byggja réttlátari, jafnari og farsælli framtíð – okkur öllum til hagsbóta.

Krafan sanngjörn: sömu kjarabætur og aðrir hafa fengið

„Við erum nýkomin úr hörðum kjaradeilum við viðsemjendur okkar þar sem reynt hefur á samstöðu okkar og samhug,“ sagði Elín Björg um kjaradeilur aðildarfélaga BSRB sem staðið hafa yfir síðustu vikur.

„Kröfur okkar voru mjög skýrar og líka mjög sanngjarnar; sömu kjarabætur og aðrir ríkisstarfsmenn hafa þegar fengið. Þótt ýmsir hafi haft uppi gífuryrði, sakað okkur um svik og heimtufrekju, á milli þess sem kröfur okkar voru sagðar ógna stöðugleika, hleypa vöxtum og verðbólgu í hæstu hæðir, hefur krafa okkar aldrei verið önnur en að fá það sama og hinir hafa þegar fengið,“ sagði Elín Björg og minnti á að BSRB hefði undanfarin ár lagt sitt af mörkum til þess að koma á stöðugleika og bættri umgjörð um gerð kjarasamninga.

Fólk upplifði svik

„Í upphafi síðasta árs gekkst BSRB undir samkomulag sem færði okkur 2,8% launahækkun og var liður í því að ná fram auknum kaupmætti launa, halda niðri verðbólgu og vöxtum og til þess að hér mætti nást meiri stöðugleiki,“ sagði Elín Björg og hélt áfram:

„En aðgerðir sumra aðila samkomulagsins, þegar gengið hafði verið frá samningum, sýndu í verki þann hugsunargang sem víða viðgengst – að launafólkið eitt eigi að axla ábyrgð á verðbólgu og stöðugleika á Íslandi. Þetta sást best á gríðarlegu launaskriði stjórnenda fyrirtækja þetta sama ár, milljarða hagnaði banka og fyrirtækja og arðgreiðslur í samræmi við það.“

„Aðeins nokkrum mánuðum áður, hafði harmakvein úr röðum atvinnurekenda hljómað hátt og það síendurtekið, að allt færi á hliðina ef kjarabætur færu upp fyrir 3%. Undir þá skoðun tóku stjórnvöld  sem á sama tíma vörðu 80 milljörðum – 80 þúsund milljónum – í skuldaleiðréttingu sem hafnaði að stórum hluta hjá fólki sem þurfti ekki á henni að halda. Leigjendur og aðrir sem hafa lægstu tekjurnar sátu eftir óleiðréttir,“ sagði formaður BSRB.

„Skattur var lækkaður á stóriðjuna, veiðigjöld höfðu verið lækkuð og auðlegðarskatturinn afnuminn á sama tíma og skattar á matvæli voru hækkaðir. Greiðsluþátttaka í velferðarkerfinu jókst og ástandið í heilbrigðismálum hefur sjaldan verið alvarlegra. Húsnæðisverð hefur haldið áfram að hækka, leiguverð sömuleiðis og lítið sem ekkert gerist til að bæta úr brýnni þörf fyrir aðgerðir í húsnæðismálum.Og svo var samið við tilteknar stéttir um tugprósenta hækkanir launa. Það er ekki nema von að fólk upplifi sig svikið.“

Ábyrgðin ekki bara launafólksins

„Það er ekki hægt að leggja allar byrðarnar á almennt launafólk og ætlast til að það eitt beri ábyrgð á verðbólgunni. Að svo viðamiklu verkefni verða allir að koma. Launafólkið veitti á síðasta ári stjórnvöldum og atvinnurekendum kjörið tækifæri til að byggja upp trú og traust á að hér væri hægt að vinna eftir nýrri aðferðafræði við gerð kjarasamninga, þar sem allir aðilar stefndu að sama markmiðinu, þar sem allir leggðu hönd á plóg, sem á endanum myndu koma öllum málsaðilum til góða í formi, aukins kaupmáttar og aukins stöðugleika. Því miður var það tækifæri ekki gripið og þess vegna höfum við upplifað eitthvað stormasamasta ár síðari tíma á íslenskum vinnumarkaði,“ sagði Elín Björg og vék því næst að kjarasamningum yfirstanda árs og samkomulagi um bætta umgjörð kjarasamninga á Íslandi.

Launaskriðstrygging réttlætismál

„Þegar röðin var komin að BSRB að setjast að samningaborðinu til þess eins að sækja sömu kjarabætur og aðrir starfsmenn ríkisins höfðu þá þegar fengið, þá kom það ekki til greina af hálfu ríkis né sveitarfélaga. Því var nauðsynlegt  að fara í hart og þess vegna hafa félagsmenn okkar staðið í verkfallsaðgerðum síðustu vikur, verkföllum sem auðveldlega hefði mátt afstýra. Samningsviljinn var hins vegar ekki mikill hjá viðsemjendum okkar þótt þeim hefði mátt vera löngu ljóst að BSRB félagar myndu aldrei sætta sig við lakari kjarabætur en aðrir ríkisstarfsmenn höfðu þegar fengið,“ sagði Elín Björg.

„Á þessu ári hafa BSRB félagar verið án samnings í meira en hálft ár og vona ég sannarlega að þetta hafi verið í síðasta skipti sem slíkt hendir. Loks sjáum við til lands í kjaramálum okkar og samhliða því höfum við undirritað samkomulag um, að vinna að því, að koma á,  nýjum og bættum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga á Íslandi.“

„Í því felst að aðildarfélög BSRB semji um  sambærilegar launahækkanir og byggt var á í niðurstöðu gerðardóms í sumar og að það  náist  samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda. Heildarsamtök opinberra starfsmanna, BSRB, BHM og KI, munu ásamt fjármálaráðuneyti kappkosta að klára vinnu vegna málefna opinberu lífeyrissjóðanna, vinnu sem staðið hefur yfir í fjölda ára. Hið nýja samkomulag mun jafnframt þýða að þegar þessari vinnu er lokið mun svokölluð launaskriðstrygging komast í gagnið sem mun tryggja opinberum starfsmönnum launahækkanir til jafns við það launaskrið sem gjarnan vill verða á almenna markaðnum umfram kjarasamningsbundnar hækkanir. Það er mikið  réttlætismál –  að launaskriðstryggingin skuli nú vera í sjónmáli, enda hefur slíkt launaskriðsákvæði verið baráttumál bandalagsins til fjölda ára,“ sagði formaður BSRB.

Aukum réttlætið og jafnréttið

Að lokum vék formaður BSRB að komandi þingstörfum og hvatti félagsmenn BSRB til að sýna samstöðu í störfunum framundan því fátt væri launafólki mikilvægara.

„Samstaða er það mikilvægasta sem við eigum. Með samtakamættinum höfum við í áranna rás breytt mörgu til hins betra og saman höfum við reist samfélag sem við getum,  þrátt fyrir allt verið nokkuð stolt af. Og saman verðum við að standa vörð um það sem mestu skiptir og gerir okkar samfélag eftirsóknarvert. Við verðum að auka jöfnuðinn, réttlætið og jafnréttið    –    sýna samhjálp og auka félagslegt réttlæti. Við verðum að hafa trú á mátt okkar til að gera gott samfélag enn betra. Og þegar ég lít upp og horfi yfir hópinn sem hér er saman komin get ég ekki verið annað en bjartsýn á að okkur takist það.“

 

Ræðu formanns BSRB má sjá í heild sinni hér að neðan.

Yfirskrift þingsins okkar að þessu sinni er „Öflug almannaþjónusta – betra samfélag“ og það eru orð að sönnu.

Undirstaða okkar samfélags, er að hér eiga allir að hafa jafnan rétt rétt – óháð kyni, aldri, búsetu, uppruna, trúar eða efnahag.

Sameiginlegan rétt til menntunar, umönnunar og heilbrigðisþjónustu án þess að greiða sérstaklega fyrir það.

Og það er þetta sem almannaþjónustan veitir.

Almannaþjónustan er undirstaða jafnaðar, félagslegs réttlætis og velferðar okkar allra.

Hvar svo sem við stöndum og hvernig svo sem við erum gerð,   eigum við að geta treyst á,  að   ef  eitthvað bjátar  á,   þá verði okkur hjálpað eftir fremsta megni til að komast aftur á réttan kjöl.

Við setjum traust okkar á félagslega samheldni, þar sem hagur heildarinnar og velferð fjöldans er í fyrirrúmi.

Samfélag sem hefur þá hugsun að leiðarljósi er samfélag sem gott er að lifa í.

Samfélag þar sem skattkerfið er nýtt til lífskjarajöfnunar og skattar standa undir samneyslunni.

Samfélag sem hafnar þeirri hugmynd að hver sé sjálfum sér næstur –  en byggir þess í stað á hugmyndum um samhjálp og félagshyggju.

Slíkt samfélag fær ekki þrifist án öflugrar almannaþjónustu.

Öflug almannaþjónusta byggir betra samfélag.

Þegar við horfum til framtíðar hljótum við að vera sammála um að við viljum gera þessum gildum okkar hærra undir höfði en nú er.

Og þó hér sé margt vel gert, hljótum við að vilja sjá öflugri heilbrigðisþjónustu, sterkara menntakerfi, betri almannatryggingar, aukinn kaupmátt og betri lífsskilyrði.

Við viljum skila komandi kynslóðum betra búi en við tókum við.

Við viljum lifa í vissu um,  að við og okkar nánustu  –   búi í samfélagi sem grípur þá sem hrasa og hjálpa þeim aftur á fætur – það eru hin sönnu verðmæti.

En til að svo megi verða þurfum við að gera betur í dag en í gær.

Þess vegna verðum við að efla almannaþjónustuna, því þannig eflum við samfélagið og lífsskilyrði okkar allra.  

Þannig aukum við hin sönnu verðmæti.

Því miður bendir margt til þess ,  að við séum á leið af þessari braut. Allt of margir eiga erfitt með að láta enda ná saman.

Ungt fólk og barnafjölskyldur eiga litla möguleika á að koma sér upp heimili.

Sjúklingar greiða allt of mikið í lyfjakostnað og heilbrigðisþjónustu.

Lífeyrisþegar hafa allt of lítið á milli handanna.

Á tímum uppgangs og endurreisnar er öfugsnúið að fátækt sé útbreidd á Íslandi og bilið sé aftur að aukast á milli þeirra efnamestu og þeirra sem minnst hafa.

Allt of mikið af ungu fólki hefur kosið að freista gæfunnar í öðrum löndum og enn fleiri hugsa sér til hreyfings.

Í fyrstu var atvinnuleysi kennt um, en jafnvel þótt atvinnuástandið sé nú með besta móti hefur þessi þróun haldið áfram.

Við verðum að horfast í augu við,  að þótt fólki sé tryggð atvinna, hagtölur sýni aukin kaupmátt og hagvöxt –   kýs fjöldi fólks samt sem áður,  að kveðja föðurlandið.

Margt ungt fólk sér fyrir sér mun bjartari framtíð í löndunum hér í kring  –  þar sem húnsæði er viðráðanlegt, vaxtakjör sanngjarnari, leiguverð lægra, matvöruverð sömuleiðis, kaupmátturinn meiri, vinnutíminn styttri og áherslur atvinnurekenda og stjórnvalda eru mun fjölskylduvænni.

Ef ekkert breytist í áherslum stjórnvalda á Íslandi er alls óvíst hvort þetta fólk muni nokkru sinni snúa aftur.

En þetta þarf ekki að vera svona.

Kunnuglegar raddir verða háværari. Raddir sem boða einfalt regluverk, einkaframtak og lága skatta sem lausn allra okkar vandamála,   á meðan allt sem rekið er á samfélagslegum grunni af hinu opinbera,  er sagt óþarfa eyðsla almannafjár.

En þegar við lítum í kringum okkur,  sjáum við einmitt hið gagnstæða.

Efnuðustu og samkeppnishæfustu  þjóðir heims,  eru vinir okkar – Norðurlandaþjóðirnar.

Þar er jöfnuðurinn hvað mestur og samhjálpin innbyggð í þjóðarvitundina.

Þessar sömu þjóðir eru þær sem verja mest af fjármunum í opinbera þjónustu, velferð og samfélagsleg verkefni.

Hagtölur þessara landa sýna svart á hvítu að þótt útgjöld til velferðarmála séu þar há, skila þeir fjármunir sér margfalt til baka.

Velferð nágranna okkar byggir á traustum opinberum fjármálum, og virðingu samfélagsins alls,   fyrir mikilvægi opinberra starfa.

Þar ríkir víðtæk sátt –  þvert á stjórnmálaflokka, samtök launafólks og atvinnulífs – að útgjöld til almannaþjónustu séu ekki óþarfa eyðsla fjármuna, heldur skynsöm fjárfesting til framtíðar.

Og sagan sýnir okkur að svo er. Hagtölur Norðurlandanna tala sínu máli.

Þau búa ekki við viðvarandi fjárlagahalla eða óhóflega skuldasöfnun – heldur skipa þau sér í efstu sætin í öllum mælingum lífsgæða.

Við þurfum að komast enn nær þeim lífsgæðum – Og við getum vel komist þangað.

Við erum vel menntuð þjóð og landið ríkt af auðlindum.

Orkan og iðnaðurinn – ferðamennirnir og fiskurinn.

Allt eru þetta tekjulindir sem ættu að nýtast þjóðarbúinu betur og skila meiru til samfélagsins.

Það þarf ekkert nema viljann, samstöðuna og samhuginn og þá getum við komist nær auknum jöfnuði og aukið lífsgæði okkar allra.

En til þess þarf breyttar áherslur hjá réttum aðilum.

Arður auðlindanna á að nýtast þjóðinni allri, til að styrkja innviðina.

Þannig tekst okkur að byggja réttlátari, jafnari og farsælli framtíð – okkur öllum til hagsbóta.

Við erum nýkomin úr hörðum kjaradeilum við viðsemjendur okkar þar sem reynt hefur á samstöðu okkar og samhug.

Ég vil hrósa þeim sem leitt hafa samninganefndir okkar félaga, starfsfólki og öðrum sem lagt hafa hönd á plóg fyrir staðfestuna sem sýnd hefur verið í þessum kjaraviðræðum.

Jafnframt ber að hrósa yfirveguninni, sem að mestu hefur einkennt málflutning okkar fólks, enda hafa kröfurnar verið mjög skýrar og líka mjög sanngjarnar;

Sömu kjarabætur og aðrir ríkisstarfsmenn hafa þegar fengið.

Þótt ýmsir hafi haft uppi gífuryrði, sakað okkur um svik og heimtufrekju, á milli þess sem kröfur okkar voru sagðar ógna stöðugleika, hleypa vöxtum og verðbólgu í hæstu hæðir,  hefur krafa okkar aldrei verið önnur en að fá það sama og hinir.

Þeir sem hæst hrópuðu völdu líka að gleyma því að í upphafi síðasta árs gekkst BSRB undir samkomulag sem færði okkur 2,8% launahækkun og var liður í því að ná fram auknum kaupmætti launa, halda niðri verðbólgu og vöxtum og til þess að hér mætti nást meiri stöðugleiki.

Mikill meirihluti íslenska vinnumarkaðarins tók þátt í þessu með Samtökum atvinnulífsins, ríki og sveitarfélögum enda áttu allir að færa fórnir og ávinningurinn átti jafnframt að vera allra.

En aðgerðir sumra aðila samkomulagsins, þegar gengið hafði verið frá samningum, sýndu í verki þann hugsunargang sem víða viðgengst – að launafólkið eitt eigi að axla ábyrgð á verðbólgu og stöðugleika á Íslandi.

Þetta sást best á gríðarlegu launaskriði stjórnenda fyrirtækja þetta sama ár, milljarða hagnaði banka og fyrirtækja og arðgreiðslur í samræmi við það.

Aðeins nokkrum mánuðum áður,  hafði  harmakvein úr röðum atvinnurekenda hljómað hátt og það síendurtekið,  að allt færi á hliðina ef kjarabætur færu upp fyrir 3%.

Undir þá skoðun tóku stjórnvöld  sem á sama tíma vörðu  80 milljörðum – 80 þúsund milljónum –  í skuldaleiðréttingu sem hafnaði að stórum hluta hjá fólki sem þurfti ekki á henni að halda.

Leigjendur og aðrir sem hafa lægstu tekjurnar sátu eftir „óleiðréttir“.

Skattur var lækkaður á stóriðjuna, veiðigjöld höfðu verið lækkuð og auðlegðarskatturinn afnuminn á sama tíma og skattar á matvæli voru hækkaðir.

Greiðsluþátttaka í velferðarkerfinu jókst og ástandið í heilbrigðismálum hefur sjaldan verið alvarlegra.

Húsnæðisverð hefur haldið áfram að hækka, leiguverð sömuleiðis og lítið sem ekkert gerist til að bæta úr brýnni þörf fyrir aðgerðir í húsnæðismálum.

Og svo var samið við tilteknar stéttir um tugprósenta hækkanir launa.

Það er ekki nema von að fólk upplifi sig svikið.

Það er ekki hægt að leggja allar byrðarnar á almennt launafólk og ætlast til að það eitt beri ábyrgð á verðbólgunni. Að svo viðamiklu verkefni verða allir að koma.

Launafólkið veitti á síðasta ári stjórnvöldum og atvinnurekendum

kjörið tækifæri til að byggja upp trú og traust á að hér væri hægt að vinna eftir nýrri aðferðafræði við gerð kjarasamninga, þar sem allir aðilar stefndu að sama markmiðinu, þar sem allir leggðu hönd á plóg,   sem á endanum myndu koma öllum málsaðilum til góða í formi,  aukins kaupmáttar og aukins stöðugleika.

Því miður var það tækifæri ekki gripið og þess vegna höfum við upplifað eitthvað stormasamasta ár síðari tíma á íslenskum vinnumarkaði.

Vandræðaganginn við að ná saman um kjarasamninga síðasta vor þekkja allir.

Verkföllum á almenna markaðnum lauk með undirritun samninga – þar sem hið sjálfsagða markmið,  um 300 þúsund króna lágmarks laun,  að þremur árum liðnum náði loks fram að ganga.

Verkföllum BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga lauk með lagasetningu og þar voru kjarabæturnar ákvarðaðar af gerðardómi.

Kröfur hópanna voru ólíkar og rökstuddar á ólíkan hátt – en báðar voru að lokum viðurkenndar sem réttmætar kröfur, annars vegar með samningum og hins vegar með úrskurði.

En þegar röðin var komin að BSRB að setjast að samningaborðinu til þess eins að sækja sömu kjarabætur og aðrir starfsmenn ríkisins höfðu þá þegar fengið, þá kom það ekki til greina af hálfu ríkis né sveitarfélaga.

Því var nauðsynlegt  að fara í hart og þess vegna hafa félagsmenn okkar staðið í verkfallsaðgerðum síðustu vikur, verkföllum sem auðveldlega hefði mátt afstýra.

Samningsviljinn var hins vegar ekki mikill hjá viðsemjendum okkar þótt þeim hefði mátt vera löngu ljóst að BSRB félagar myndu aldrei sætta sig við lakari kjarabætur en aðrir ríkisstarfsmenn höfðu þegar fengið.

Síðustu tvö ár hefur verið unnið að því markvisst að bæta umgjörð við gerð kjarasamninga.

Það var að frumkvæði BSRB sem sú vinna fór af stað.

Markmið BSRB í tillögum bandalagsins,  að bættri umgjörð kjarasamninga var fyrst og síðast að tryggja að nýr samningur tæki við þegar sá eldri væri úr gildi og að koma á launaþróunartryggingu á milli almenna og opinbera markaðarins.

Á þessu ári hafa BSRB félagar verið án samnings í meira en hálft ár og vona ég sannarlega að þetta hafi verið í síðasta skipti sem slíkt hendir.

Loks sjáum við til lands í kjaramálum okkar og samhliða því höfum við undirritað samkomulag um, að vinna að því, að koma á, nýjum og bættum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga á Íslandi.

Um er að ræða rammasamkomulag  um sameiginleg vegferð við gerð kjarasamninga.

Í því felst að aðildarfélög BSRB semji um  sambærilegar launahækkanir og byggt var á í niðurstöðu gerðardóms í sumar og að það  náist  samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda.

Heildarsamtök opinberra starfsmanna BSRB; BHM og KI  munu ásamt fjármálaráðuneyti kappkosta að klára vinnu vegna málefna opinberu lífeyrissjóðanna, vinnu sem staðið hefur yfir í fjölda ára.

Hið nýja samkomulag mun jafnframt þýða að þegar þessari vinnu er lokið mun svokölluð „launaskriðstrygging“ komast í gagnið sem mun tryggja opinberum starfsmönnum launahækkanir til jafns við það launaskrið sem gjarnan vill verða á almenna markaðnum umfram kjarasamningsbundnar hækkanir.

Það er mikið  réttlætismál –  að launaskriðstryggingin skuli nú vera í sjónmáli, enda hefur slíkt launaskriðsákvæði verið baráttumál bandalagsins til fjölda ára.

Við sjáum því fram á að vera að taka fyrstu skrefin inn í nýtt framtíðarskipulag kjarasamningsviðræðna á Íslandi,  sem ég tel að muni að lokum gagnast öllum aðilum á vinnumarkaði.

Rétt er þó að taka fram, að allt er þetta háð því að farsæl lausn náist um málefni opinberu lífeyrissjóðanna og sátt náist um framtíðarskipan lífeyrismála á milli heildarsamtaka opinberra starfsmanna og viðsemjenda þeirra.

Kæru félagar.

Undanfarin þrjú ár hefur hefur stjórn BSRB, framkvæmdastjórn og starfsfólk skrifstofu bandalagsins unnið ötullega að því að hrinda stefnumálum BSRB sem samþykkt voru á síðasta þingi í framkvæmd.

Og aftur erum við saman komin til að móta áherslur okkar til næstu þriggja ára.

Að við skulum koma hér saman til þings í þrjá daga til þess að eiga samtal    okkar á milli er okkur afar mikilvægt. Að skiptast á skoðunum, hlusta og læra af hvert öðru,  getur aðeins orðið til þess að skerpa hugsanir okkar og hugsjónir.

Þau ykkar sem eru að koma til þings í fyrsta skipti bíð ég sérstaklega velkomin og vona að þessi reynsla muni vera ykkur ánægjuleg og til þess að hvetja ykkur enn frekar til að taka þátt í starfi BSRB og aðildarfélaga þess.

Ég vona líka að þið sem reyndari eruð taki nýliðunum sérstaklega vel og hlustið á það sem þeir hafa að segja, því þótt reynslan vegi þungt geta nýjar raddir gefið okkur nýja sýn.

Á þessu þingi vonast ég til,  að sem flestar raddir fái að heyrast. Við skipuleggjum þingið með þetta í huga og því hefur málstofum þingsins verið gefið aukið vægi.

Það er von okkar,  að það  muni virkja sem flesta til þátttöku og þannig getum við öll haft áhrif.

Það er margt sem þarf að ræða. Um margt erum við eflaust sammála en um annað ekki.

Munum að það er heilbrigt að takast á um málin og heyra ólíkar skoðanir.

En höfum jafnframt hugfast að gera það af yfirvegun og virðingu hvert fyrir öðru.

Þótt við komum frá ólíkum stöðum þá erum við að vinna að sameiginlegu markmiði – markmiðinu um bætt lífskjör og betri lífsgæði launafólks.    

Við megum aldrei missa sjónar af því markmiði.

Samstaða er það mikilvægasta sem við eigum. Með samtakamættinum höfum við í áranna rás breytt mörgu til hins betra og saman höfum við reist samfélag sem við getum,  þrátt fyrir allt verið nokkuð stolt af.

Og saman verðum við að standa vörð um það sem mestu skiptir og gerir okkar samfélag eftirsóknarvert.

Við verðum að auka jöfnuðinn, réttlætið og jafnréttið – sýna samhjálp og auka félagslegt réttlæti.

Við verðum að hafa trú á mátt okkar til að gera gott samfélag enn betra.

Og þegar ég lít upp og horfi yfir hópinn sem hér er saman komin get ég ekki verið annað en bjartsýn á að okkur takist það.

Þing BSRB: Viljayfirlýsing um styttingu vinnuviku

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, afhenti Elínu Björgu Jónsdóttur formanni BSRB í morgun viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma.

Ráðherra hélt ræðu við setningu 44. þings BSRB en við lok hennar tilkynnti hann að í tengslum við gerð kjarasamninga ríkisins við aðildarfélög BSRB í október 2015 hafi verið ræddir mögulegar leiðir til að stuðla að styttingu vinnutíma án launaskerðingar. Í framhaldi af viðræðum um gerð kjarasamninga lýsi ríkisstjórn Íslands sig reiðubúna að beita sér fyrir því að komið verði á fót tilraunaverkefni þar sem vinnutími verði styttur án launaskerðingar.

Markmið tilraunaverkefnisins er að kanna hvort stytting vinnuviku úr 40 vinnustundum á viku niður í 36 stundir leiði til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi stofnana. Sérstaklega verði skoðað hvernig megi útfæra styttingu vinnutíma hjá ólíkum tegundum stofnana, þar á meðal þar sem unnin er vaktavinna.

Af þessu tilefni verði stofnaður starfshópur skipaður fulltrúum ráðuneyta og BSRB og hugsanlega fleiri aðilum sem kunna að koma að verkefninu. Starfshópnum verður falið að skilgreina nánar markmið og aðferðir sem verði notaðar við útfærslu verkefnisins og hvernig skuli meta áhrif styttingu vinnutíma á heilsu og vellíðan starfsfólks og starfsanda á vinnustöðunum og þá þjónustu sem viðkomandi vinnustaðir veita með tilliti til gæða og hagkvæmni.

Gert er ráð fyrir að tilraunaverkefnið verði í samræmi við gildistíma framangreindra kjarasamninga. Starfshópur mun skila af sér skýrslu um árangur tilraunaverkefnisins a.m.k. sex mánuðum áður en kjarasamningar renna út.

BSRB fagnar þessum áfanga í tengslum við kröfu um styttingu vinnuvikunnar. Bandalagið gerði fyrstu kröfu þar um í tengslum við gerð kjarasamninga aðildarfélaga BSRB 2004 en Reykjavíkurborg setti á fót sambærilegt tilraunaverkefni árið 2014. Nú hefur ríkið bæst í þann hóp.

 

KÆRU FÉLAGSMENN! NÆSTI FUNDUR MEÐ SAMNINGANEFND BÆJARSTARFSMANNAFÉLAGA ER Í DAG 3/11´15 Kl. 10:00. Stjórn SfK.

Frestur umsókna og fylgiganga 2015

Styrktarsjóður BSRB vill benda félagsmönnum á að til að geta fengið styrk vegna ársins 2015 er nauðsynlegt að skila umsóknum og fylgigögnum í síðasta lagi föstudaginn 18. desember nk.

Þetta á bæði við um þá sem þegar hafa sent inn umsóknir á netinu og eiga eftir að skila inn fylgigögnum og  einnig þá sem eiga eftir að sækja um.

Komi umsóknir eftir þann tíma mun umsóknin undantekningalaust falla yfir á rétt ársins 2016.

Að gefnu tilefni bendum við á að skila þarf frumriti reikninga til sjóðsins, reikningar sendir með tölvupósti teljast ekki gildir.
Bestu kveðjur,

Starfsfólk Styrktarsjóðsins

Framhalds aðalfundur miðvikudaginn 14.10.2015!

Við minnum á að  miðvikudaginn 14. október verður framhalds aðalfundur Starfsmannafélags Kópavogs haldinn kl. 17.30 að Gjábakka, Fannborg 8. Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

Fundur settur.

Fundarstjóri og fundarritari skipaðir.

Reikningar lagðir fram félagslega endurskoðaðir og áritaðir af löggiltum endurskoðenda.

Starfseglur Vísindasjóðs SfK kynntar.

Stjórn SfK

Hægt þokast hjá bæjarstarfsmannafélögum

Sameiginlega samninganefnd bæjarstarfsmannafélaganna innan BSRB hefur undanfarið setið á samningafundum ásamt samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hægt hefur þokast og er m.a. beðið eftir sameiginlegri vinnu svonefnd SALEK-hóps sem fjallar um mögulegar leiðir til að bæta kjarasamningagerðina og finna sameiginlegar lausnir fyrir þá hópa sem enn eiga eftir að semja og þá sem þegar hafa klárað sína samninga.

Vegna þessa skrifuðu samninganefndir bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB og samninganefnd Sambandsins undir samkomulag þar sem kemur fram að dragist kjaraviðræður farm í október mun gildistími hins nýja samkomulags vera frá 1. maí 2015.

Þar fyrir utan hefur samninganefnd bæjarstarfsmannafélagana verið að skoða ýmsar leiðir til að ná fram sambærilegum hækkunum og gerðardómur úrskurðaði félögum í BHM og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Nokkrar útfærslur hafa verið skoðaðar en fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa ekki fengist til að tjá sig um leiðir til að bæta launaliðinn að svo stöddu.

Fulltrúar munu hittast aftur á mánudaginn nk. og halda áfram viðræðum sínum.

Sjá hér niðurstöður endurskoðun starfsmatskerfisins(leiðrétt gögn):

XKerfisbundin endurskoðun starfsmats 2015 (ÚTGEFIN STÖRF) LEIÐRÉTT SKJAL

Endurskoðun á starfsmatskerfinu.

Endurskoðun á starfsmatskerfinu SAMSTARF.
Niðurstaða vinnu við endurskoðun starfsmatskerfis sveitarfélaganna, SAMSTARFS liggur nú fyrir ásamt starfsmatsniðurstöðum sem unnar voru samkvæmt bókunum eitt og tvö með gildandi kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og stéttarfélaga innan BSRB og ASÍ, sem samið hafa um starfsmat. Jafnframt eru aðilar sammála um að gera sérstaka greinargerð um endurskoðunarvinnuna. Fulltrúar stéttarfélaganna í framkvæmdanefndinni vinna fyrstu drög að greinargerðinni.

Starfsmatskerfið byggir á bresku starfsmatskerfi, Single Status Job Evaluation, sem innleitt var hér á landi árið 2002. Frá upptöku kerfisins hefur það aldrei verið uppfært til samræmis við þróun þess í Bretlandi. Það var því orðið mjög aðkallandi að fara í þessa vinnu til að tryggja áframhaldandi notkun og trúverðugleika kerfisins við að meta störf innan sveitarfélaganna með réttmætum og áreiðanlegum hætti og stuðla þannig að jafnræði og jafnrétti í launasetningu.

Starfsmatið er samstarfsverkefni þeirra sveitar- og stéttarfélaga sem um það hafa samið í kjarasamningum og þau mynda með sér starfsmatsnefndir, annars vegar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hins vegar hjá Reykjavíkurborg. Saman mynda nefndirnar eina faglega samráðsnefnd sem tekur stefnumótandi ákvarðanir varðandi þróun kerfisins og önnur fagleg málefni.

Sett var á laggirnar Verkefnastofa starfsmats sem rekin er af Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að vinna tillögur að uppfærslu og endurbótum á starfsmatskerfinu til samræmis við þá þróun sem orðið hefur á því í Bretlandi. Endurskoðun fól í sér breytingar á spurningakerfi, þrepa- og þáttaskilgreiningum og túlkun einstakra þátta kerfisins.

Framkvæmdanefnd starfsmatsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðsemjenda þess, sem í sitja þrír fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tveir fulltrúar frá BSRB og einn fulltrúi frá ASÍ, hafa fjallað um rökstuddar tillögur starfsmatssérfræðinga verkefnastofu og tók á grundvelli þeirra og upplýsinga frá sveitarfélögunum um inntak starfa, ákvörðun um breytingar á mati einstakra starfa. Í endurskoðunarvinnunni var kallað eftir starfslýsingum frá öllum sveitarfélögunum. Skýrt kom í ljós við yfirferð þeirra að nú eru almennt gerðar meiri kröfur um gæði þjónustu en áður.

Við kostnaðarmat gildandi kjarasamninga sambandsins og starfsmatsfélaga var ógerlegt að meta fyrirfram hugsanlegan kostnað af endurskoðun starfsmatsniðurstaða. Þær upplýsingar lágu þó fyrir frá höfundum kerfisins í Bretlandi að mjög litlar breytingar hefðu orðið á starfsmatskerfinu frá því það var tekið í notkun hér á landi árið 2002. Með þær upplýsingar í farteskinu gengu samningsaðilar út frá því að kostnaður við endurskoðun kerfisins yrði óverulegur. Þegar farið var að vinna að endurskoðuninni kom hins vegar annað í ljós. Eitt og annað hafði tekið breytingum á þeim 13 árum sem liðin eru frá innleiðingu starfsmatskerfisins, sem nauðsynlegt var að leiðrétta. Samband íslenskra sveitarfélaga metur að breytingar á starfsmatskerfinu leiði til 3,3% hækkunar launakostnaðar meðal starfsmatsfélaga að jafnaði hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur.
Framkvæmdanefnd starfsmatsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og þeirra stéttarfélaga innan BSRB og ASÍ, sem samið hafa um starfsmat er sammála um að launabreytingar vegna endurskoðunar starfsmatskerfisins verði framkvæmdar með eftirfarandi hætti.
• Kjarasvið sambandsins sendir sveitarfélögum hverju og einu allar breytingar vegna kerfisbundinnar endurskoðunar starfsmatskerfisins á útgefnum störfum ásamt leiðbeiningum um framkvæmd. Einnig verða breytingar á staðbundnum starfsmatsniðurstöðum sendar til viðkomandi sveitarfélaga. Sömu gögn verða afhent viðkomandi stéttarfélögum.
• Sveitarfélög yfirfari og breyti stiganiðurstöðu starfa sinna til samræmis við þær breytingar sem niðurstaða endurskoðunar á starfsmatskerfinu og starfsmatsniðurstöðum fela í sér.
• Breytingar á starfsmati sem leiða til breytinga á launaröðun vegna endurskoðunarinnar taka gildi frá 1. maí 2014 og leiðréttast samkvæmt launatöflu II með gildandi kjarasamningi. Er þetta í samræmi við framkvæmd fyrri leiðréttinga á starfsmati og er óháð því hvort breytingin kemur til framkvæmda eftir að nýr kjarasamningur tekur gildi.
• Miða skal við að breyting á launaröðun starfsmanna samkvæmt endurskoðuðu starfsmati komi til framkvæmda 1. ágúst, en þó eigi síðar en 1. september 2015.
• Í ljósi þess að um töluverða vinnu er að ræða er sveitarfélögum gefið svigrúm til 1. október 2015 til að framkvæma afturvirkar launabreytingar starfsmanna. Sveitarfélög eru þó hvött til að ljúka leiðréttingum eins fljótt og kostur er.
Lækki starf í kerfisbundinni endurskoðun skal starfsmaður halda óbreyttri launaröðun en nýir starfsmenn taka laun samkvæmt gildandi starfsmati.

Kæru félagsmenn!

Verið er að vinna skjal vegna endurskoðunar á starfsmatinu,þar sem búið er að endurmeta öll útgefin gögn sem eru á heimasíðu verkefnastofu um starfsmat og mun nánari upplýsingar verða settar inn vegna þessa á n.k. mánudag.
Hvað varðar kjarasamningagerð, þá er vinna ekki farin í gang þar sem félögin töldu rétt að fullnusta síðasta kjarasamning,vegna endurskoðunar á starfsmati,áður en gengið yrði til nýrra samninga. Nánari upplýsingar verða settar inn eftir helgina.
með kveðju,
stjórn SfK.

Page 10 of 21« First...«89101112»20...Last »

Nýttu þér rétt þinn og leyfðu okkur að gera þér lífið léttara. Starfsmannafélag Kópavogs býður upp á fjölda styrkja, námskeiða og tækifæra. Hafðu samband og við sjáum hvað við getum gert saman.